MARKMIÐ |
|
Markmið Listskreytingasjóðs er að fegra opinberar byggingar og umhverfi þeirra með listaverkum og stuðla þannig að listsköpun í landinu. Listskreytingasjóður ríkisins varð upphaflega til með stjórnarfrumvarpi árið 1982 sem þáverandi menntamálaráðherra, Ingvar Gíslason, lagði fram á Alþingi Íslendinga. Fyrsta úthlutun var árið 1983. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum nr. 64/2012. Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til listskreytinga opinberra bygginga umhverfis þeirra og annarra útisvæða á forræði ríkis og sveitarfélaga. Fjárveiting til sjóðsins, vegna bygginga sem fullbyggðar voru við gildistöku laganna (1. janúar 1999), er ákveðin í fjárlögum ár hvert. Verja skal 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listskreytingar hennar og umhverfis.
Þegar reist eru mannvirki sem lög sjóðsins taka til, ber arkitekt og byggingarnefnd sem hlut eiga að máli að leita faglegrar ráðgjafar hjá stjórn Listskreytingasjóðs, sbr. 5.gr. laga sjóðsins.
Sögulegt yfirlit Listskreyting hefur verið sterkur þáttur í sögu byggingalistar, samofin listasögu hverrar þjóðar, í henni speglast þroski hvers menningarskeiðs. Fjölmörg dæmi eru um listaverk í skreytingum bygginga allt frá forsögulegum tímum fram á okkar daga. Mest ber á listskreytingum í kirkjubyggingum frá miðöldum. Í opinberum byggingum hafa listskreytingar verið á undanhaldi á síðustu öld og er þá einna helst vélvæðingu í byggingariðnaði ásamt róttækum þjóðfélagslegumbreytingum um að kenna. Á Íslandi eru nokkur ágæt dæmi um listskreytingu eldri bygginga.
|